Fyrirlestur um erfðabreytt matvæli
Monday, 26 May 2008 09:30

Einn kunnasti fyrirlesari heims um áhrif erfðatækninnar á umhverfi og heilsufar heimsækir Ísland:

 

Jeffrey Smithheldur fyrirlestur um

heilsufarsáhrif erfðabreyttra

matvæla

 

Bandaríski fyrirlesarinn og metsöluhöfundurinn Jeffrey Smith heldur fyrirlestur á opnum fundi í boði Kynningarátaks um erfðabreyttar lífverur þar sem hann fjallar um heilsufarsáhættu og neyslu erfðabreyttra matvæla. Fyrirlesturinn verður á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 27. maí og hefst kl. 16.30.

Jeffrey Smith er einn kunnasti fyrirlesari heims um erfðabreytt matvæli  og er tíður álitsgjafi stjórnvalda, almannasamtaka og fjölmiðla um umhverfis- og heilsufars-áhrif erfðatækninnar. Hann er sömuleiðis þekktur rithöfundur og hefur með störfum sínum og skrifum haft gríðarleg áhrif á opinbera umræðu um notkun erfðatækni.

Jeffrey Smith – í forystu fyrir gagnrýnni umræðu um erfðatækni

Jeffrey Smith er framkvæmdastjóri Institute for Responsible Technology í Iowa í Bandaríkjunum. Rannsóknir hans vöktu heimsathygli árið 2003 með útkomu fyrstu bókar hans, Seeds of Deception, sem mun vera söluhæsta bók fyrr og síðar um erfðabreytt matvæli og hefur verið þýdd á 10 tungumál. Ein nýjasta bók hans, Genetic Roulette: The Documented Health Risks of Genetically Modified Foods, rekur 65 áhættuþætti fyrir heilsufar sem stafa af erfðabreyttum matvælum, og sýnir fram á að núverandi öryggismat er ófullnægjandi vörn almennings gegn hugsanlegu tjóni.

Jeffrey Smith er vinsæll framsögumaður, hefur haldið fyrirlestra í yfir 25 löndum og verið ráðgjafi leiðtoga úr öllum heimsálfum. Hundruðir fjölmiðla víða um heim hafa vitnað í mál hans, meðal þeirra eru The New York Times, Washington Post, BBC World Service, Nature, New Scientist, og Time Magazine. Jeffrey Smith er stofnandi átaksverkefnis um skóla án erfðabreyttra matvæla (The GM-Free School Campaign) og átaksverkefnis um hollara mataræði í Bandaríkjunum (The Campaign for Healthier Eating in America) sem er byltingarkennd hreyfing atvinnulífs og neytenda sem hefur það markmið að koma erfðabreyttum afurðum út úr bandarískum matvælum.


Vísbendingum um neikvæð áhrif erfðabreyttra afurða fjölgar

Erfðatækni er tiltölulega nýtt svið þar sem tilfærslu á erfðaefni milli óskyldra lífvera er beitt til að ná fram tilteknum eiginleikum. Á undanförnum árum hafa vaknað áleitnar spurningar um afleiðingar hennar fyrir erfðamengi lífvera og lífríkið almennt. Borist hafa tíðindi víða að úr heiminum sem benda til þess að neysla erfðabreyttra afurða kunni að hafa skaðleg áhrif á heilsufar til lengri og skemmri tíma litið. Fregnir frá bændum í Asíu, Evrópu og Norður Ameríku tengja sjúkdóma, ófrjósemi og dauða í búfé við notkun á erfðabreyttu fóðri og beitilandi. Tilraunir vísindamanna með fóðrun dýra á erfðabreyttum afurðum hafa leitt í ljós tjón á nær öllum líffærum og líffærakerfum. Þá hafa vaknað áleitnar spurningar um tengsl ofnæmis og eitrunar við neyslu erfðabreyttra matvæla. Jeffrey Smith telur slík skjalfest gögn gefa fullt tilefni til að fara fram á að notkun þeirra í matvælum verði hætt.

Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur:

§         Landvernd

§         MATVÍS

§         Náttúrulækningafélag Íslands – NLFÍ

§         Neytendasamtökin

§         Vottunarstofan Tún

Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur heldur úti heimasíðunni www.erfdabreytt.net.

 
 

Hvað er nýtt